top of page

Stöng valin

Rétt val á stöng stökkvara er ekki aðeins lykilinni að árangri hans heldur einnig mikilvægt öryggisatriði. Þyngd stökkvara og griphæð hans spila stærstan þátt í vali stangarinnar, tækni og hraði stökkvara skipta þó líka máli. Ef stökkvari er með rétta stöng ætti grip hans að vera eins ofarlega og stöng leyfir, þannig er auðveldara fyrir stökkvara að beygja stöngina.

 

Stöngum má skipta gróflega í tvo flokka æfingastangir og keppnisstangir. Æfingastangir hafa þann kost að svigna auðveldlega og eru lengur að rétta úr sér en keppnisstangir. Þessar stangir henta afar vel til tækniþjálfunar og þá sérstaklega á meðan verið er að ná tökum á nýrri tækni. Stökkvara gefst þá lengri tími til að hugsa og framkvæma réttar hreyfingar (Sutcliffe, 1991). Á móti kemur að tímasetningar verða líklega rangar en góður stökkvari hefur þann eiginleika að framkvæma hvern hluta stökksins á hárréttum tíma. Þjálfari sem hefur þessar stangir til taks ætti því að gæta þess að halda notkun þeirra í lágmarki fyrir þá sem hafa hugsað sér að keppa í greininni. Best er að stökkvari æfi og keppi með sömu stöng. Ný stöng kallar oftar en ekki á nýjar tímasetningar og slíkt þarfnast góðrar þjálfunnar

 

Á enda hverrar stangar er sú hámarksþyngd sem stöng getur borið, gefin upp í pundum (lbs). Til eru stangir fyrir einstaklinga allt frá 30 kg - 100 kg. Hægt er að fá stangir allt frá 3 m upp í 5 m. Velja skal stöng sem samsvarar þyngd og griphæð stökkvara. Erfitt er að segja nákvæmlega hve langa stöng stökkvari þarf og því getur verið gott að prófa sig áfram. Til viðmiðunar má miða við að stökkvari 11 – 13 ára noti stöng í kringum 3 – 3,5 m og stökkvari sem er orðin 14 – 15 ára noti stöng í kringum 4 m. Þær stangir sem ætlaðar eru þyngri stökkvurum eru þyngri en þær sem ætlaðar eru léttari stökkvurum, þær eru að sama skapi yfirleitt stífari.

Skipt um stöng

Yfirleitt bæta byrjendur sig hratt með góðri kennslu. Öryggi stökkvara eykst með hverri æfingunni, grip hækkar, tækni batnar og hraði atrennu eykst. Þegar grip stökkvara er komið í hæstu stöðu á stönginni þá er möguleiki á því að hækka það, en þá þarf að skipta um stöng. Ef stökkvari var á réttri stöng m.t.t. griphæðar og þyngdar er nóg að finna lengri stöng fyrir sömu þyngd.

Fæst íþróttarfélög búa svo vel að eiga stangir sem henta öllum stökkvurum og þá verður þjálfari að vinna með það sem hann hefur. Stökkvari sem er með lágt grip getur nýtt sér stangir sem ætlaðar eru léttari stökkvurum þar til hann hækkar grip sitt. Einnig geta stökkvarar notað stangir sem ætlaðar eru þyngri keppendum. Í slíkum tilfellum eru ekki miklar líkur á því að stökkvari nái að beygja stöngina. Til þess að sveigja stöng þarf stökkvari að búa yfir miklum krafti, öryggi, góðri tækni og fyrst og fremst vera með rétta stöng fyrir sína hæð og þyngd. Fáir byrjendur ná tökum á því að beygja stöngina enda ætti þjálfari alls ekki að leggja áherslu á það. Lykilatriði í vali á stöng er að stökkvari sér öruggur á stönginni og að hún sé ekki það þung að þyngd hennar komi niður á tækni hans.

Hámarksþyngd stökkvara

Lengd stangar

bottom of page