top of page

Verkefnið

Frjálsíþróttasamband Íslands hefur á undanförnum árum lagt mikið upp úr því að bæta árangur afreksfólks, aðstöðu og starfshætti ásamt því að útbreiða íþróttagreinina. Lykilinn að því að uppfylla þessi skilyrði liggur í starfi þjálfara, þekkingu hans á viðfangsefninu og hæfni hans til að miðla öðrum. Til þess að ofangreindum markmiðum sé náð þarf að leggja áherslu á góða þjálfun barna og unglinga. Þekking þjálfara endurspeglast oftar en ekki í árangri íþróttamannsins og því er ljóst að fræðsla þjálfara vegur þungt. Burt sé frá því hvort þjálfari hafi vilja til þess að auka þekkingu sína virðist lítið efni vera til á íslensku sem ætlað er frjálsíþróttaþjálfurum og erfitt er að hafa uppi á því sem til er.

Markmið verkefnisins er tvíþætt:

 

  1. Auka gagnagrunn fræðsluefnis um stangarstökk á íslensku.

  2. Bæta þjálfun barna og unglinga í stangarstökki með aukinni þekkingu þjálfara.

 

Vefsíðan var sett upp með það í huga að uppfylla ofantalin markmið. Það má segja að verkefnið sé frumraun í sínum flokki og inniheldur allar helstu upplýsingar sem þjálfari þarf á að halda til þess að kenna 11-14 ára börnum og unglingum stangarstökk. Um er að ræða ítarlegt fræðsluefni um tækni greinarinnar, aðbúnað, algengar villur ásamt val á stöng. Auk þess er greininni skipt niður í kennslustig og æfingar sýndar á kennslumyndböndum. Þrátt fyrir að frjálsíþróttir séu sjöunda vinsælasta íþrótt landsins hefur aldrei verið gefið út jafn ítarlegt efni um stangarstökkskennslu barna og unglina hér á landi. Með bættum aðbúnaði greinarinnar hefur þátttaka barna og unglinga aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og þörfin á góðu kennsluefni eykst dag frá degi.

bottom of page