top of page

Aðferðir

Gerð þessarar verkefnis krafðist bæði leitar af fræðilegu efni sem og vinnslu við tæknilega uppsetningu vefsíðu, gerð myndbanda, ljósmynda og teikninga. Fræðilegur bakgrunnur verkefnisins er sóttur í bækur um frjálsíþróttir, þjálfun og stangarstökk.höfundar útskýrðu stangarstökk út frá ólíkum sjónarhornum með mismunandi aðferðum. Algengt var að greinin væri brotin niður í kennslustig og tæknin útskýrð með teikningum eða ljósmyndum.  Bókin Pole Vault eftir Peter Sutcliffe var sú eina sem fjallaði eingöngu um stangarstökk.  Sutcliffe var einnig sá eini sem tók fyrir val á stöng og fjallaði ítarlegaum annan aðbúnað stangarstökks ásamt því að skoða greinina út frá sjónarhorni hreyfingafræðinnar. Gerry Carr nefndi algengar villur, í bók sinn, sem stökkvari framkvæmir. Hann fjallaði um ástæður þeirra og hvernig mætti lagfæra þær. Carr braut stangarstökk einnig niður og fjallaði ítarlega um hvern hluta stökksins. Hið sama gerðu Jacoby og félagar og Stefán Kristjánsson í bók sinni um frjálsíþróttir frá 1951. Bók Rasmussen og félaga fjallaði um kennslu barna og unglinga í stangarstökki. Í bók þeirra mátti finna góðar æfingar m.t.t. aldurs iðkenda. Það sama má segja um bók Næsheim-Bjørkvik og Brynemo (2008) og handbók Þráins (1988). Í þeim má finna ráðleggingar um kennslu og uppsetningu ákveðinna æfinga sem eru að stórum hluta byggðar á reynslu höfunda sem frjálsíþróttarþjálfara og stangarstökkvara. Æfingar voru valdar m.t.t. hversu líkleg þær væru til að vekja áhuga barns á greininni á sama tíma til og tækni þess jókst. Gagnagrunnur æfinga er sem fyrr var sagt út bókum eftir Þráin, Carr, Rasmussen, Næsheim-Bjørkvik og Brynemo.

 

Teikingar og ljósmyndir eru eftir höfund nema annað sé tekið fram. Grafíska hönnunnarforritið Serif DrawPlus X8 var notað við teikingar  og ljósmyndir voru teknar á Canon eos 550d. Við myndvinnslu notaði höfundur Adobe Photoshop Lightroom 5.4. Öll myndbönd og vinnsla þeirra er einnig vinna höfundar. Efni var tekið upp annars vegar á Canon eos 550d og hins vegar á Gopro Hero4 silver í HD gæðum. Við myndvinnslu notaði höfundur Windows Movie Maker og vefsíðan var sett upp í gegnum Wix.

 

Æfingar voru framkvæmdar af frjálsíþróttaiðkendum í Ungmennafélagi Laugdæla á aldrinum 10 – 15 ára með samþykki foreldra eða forráðramanna. Upptaka fór fram í íþróttahúsinu á Laugarvatni og var sá aðbúnaður sem þar er til staðar notaður við uppsetningu æfinga. Æfingarnar voru hluti af  þjálfun barnanna og voru framkvæmdar undir stjórn þjálfara. Höfundur valdi að nota unga byrjendur við framkvæmd æfinga með það í huga að gefa þjálfurum hugmynd um þær kröfur sem ætti að gera til byrjenda á aldrinum 11 – 14 ára.

 

Vefsíða hefur marga kosti og hentar afar vel til þess að koma kennsluefni á framfærir. Höfundi gefst tækifæri til þess að gefa efninu líf með fjölda mynda og myndbanda og er það ástæða þess að þessi uppsetning varð fyrir valinu. Auk þess er efnið mjög aðgengilegt og með stöðugri tæknivæðingu er hægt að opna vefsíðuna hvar og hvenær sem er. Síðast en ekki síst er auðvelt að uppfæra efni og bæta við ef þörf krefur.

 

bottom of page